Gunnar ekki á þessum lista yfir 10 bestu

Gunnar er ekki á lista yfir 10 bestu íþróttamenn ársins á Íslandi samkvæmt frábæru vali íslenskra íþrótta„fréttamanna“. Maður hlýtur auðvitað að vera þakklátur yfir að við Íslendingar skulum eiga svona góða íþrótta„fréttamenn“ sem eru svona vel að sér í heimi íþróttanna og gersneyddir öllum fordómum í garð annarra íþrótta en boltaíþrótta, sunds og frjálsra. Vissan um að þeir séu að horfa vel í kringum sig og velji þá bestu fyrir okkur hin hríslast um mann og hvar værum við án slíkra fagmanna sem þessara? Þökk sé þeim.

Sennilega blikna sigrar Gunnars miðað við þau heimsafrek sem margir á lista íþrótta„fréttamannanna“ hafa gert á árinu en þar sem mér er málið skylt ætla ég að lofa mér að geta svona um helstu verðlaun hans á árinu sem nú er að liða:

  • Mars: Gullverðlaun á Pan Jiu-Jitsu Championship í Kaliforníu. Mótið er annað stærsta BJJ Gi-mót í heimi sem haldið er ár hvert. 2400 keppendur tóku þátt í mótinu.
  • Apríl: Gull- og bronsverðlaun á New York opna meistaramótinu í Jiu Jitsu (New York International Open Jiu-Jitsu Championship 2009). Gunnar sigraði sinn þyngdarflokk og lenti í þriðja sæti í opnum flokki. Þess má geta að Gunnar var hársbreidd frá því að komast í úrslit í opnum flokki en hann tapaði í undanúrslitum fyrir sér miklu þyngri andstæðingi á minnsta mögulega stigamun.
  • Júní: Silfurverðlaun á Heimsmeistaramótinu í BJJ (World Jiu-Jitsu Championship 2009 eða Mundials) í Kaliforníu sem er stærsta Gi-mót í heimi sem haldið er ár hvert með á þriðja þúsund keppendur. Sló m.a. út heimsmeistara frá síðasta ári og fékk gríðarlegt lof fyrir sókndirfsku en hann var að sigra úrslitaglímuna þegar aðeins 30 sekúndur voru eftir. Þá reyndi hann lás sem tókst ekki og við það fékk andstæðingur hans 2 stig sem dugðu til sigurs á minnsta mun. Árangur Gunnars og sóknarstíll varð til þess að honum var boðinn þátttaka á ADCC 2009 sem er sterkasta glímumót í heimi og haldið annað hvert ár.
  • September: 4. sætið í opnum flokki á ADCC í Barcelona eftir að hafa m.a. sigra Jeff Monson og Dave Avellan. ADCC er án efa sterkasta glímumót í heimi en mótið er haldið annað hvert ár og þangað er aðeins boðið þeim 16 bestu í hverjum þyngdarflokki en Gunnar þurfti að keppa 11 kg upp fyrir sig í þyngdarflokki þar sem hann þyngdarflokkur var fullsetinn þegar ákveðið var að bjóða honum sæti á mótinu. Auk þess keppti Gunnar í opnum flokki en opni flokkurinn er valinn á síðasta mótdegi og þar eru aðeins 16 sæti alls. Að lenda í fjórða sæti í opna flokknum á ADCCr er með ólíkindum, ekki síst þegar horft er til þess að Gunnar var léttasti keppandinn í opnum flokki og lagði þann þyngsta og reyndasta sem var 40kg þyngri en Gunnar!
  • Október: Gull- og silfurverðlaun á Pan No-Gi Championship 2009 sem haldið var í New York og silfurverðlaun á Opna Norðurlandameistaramótinu í BJJ í Stokkhólmi. Gunnar sigraði sinn þyngdarflokk í New York og lenti í 1.-2. sæti í opnum flokki en hann hlaut  silfrið eftir hlutkesti gullverðlaunin þar sem hann var í efsta sæti ásamt æfingafélaga sínum úr sama liði og þá er ekki glímt um gullið.
  • Nóvember: Tvenn gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í BJJ. Gunnar sigraði bæði sinn þyngdarflokk og opna flokkinn með miklum yfirburðum. Vann allar 11 glímur sínar örugglega án þess að nokkur andstæðinga hans næði að skora svo mikið sem eitt stig gegn honum.

Ég hef fengið bæði heimsóknir, símtöl og tölvupósta í dag þar sem menn furða sig á því að Gunnar skuli ekki vera á listanum. Einhverjir höfðu haft samband við einhverja íþróttafréttamenn og spurt út í þetta en m.a. fengið þau svör að íþróttir Gunnars séu ekki innan ÍSÍ og því sé hann ekki gjaldgengur í þetta kjör. Slík rök standast auðvitað enga naflaskoðun. Í fyrsta lagi þá eru til fleiri íþróttir en þær sem eru undir hatti ÍSÍ og það getur einfaldlega ekki verið hlutverk íþróttafréttamanna sem vilja láta taka sig alvarlega að skrifa eingöngu eða horfa til íþrótta sem þar eru undir, hvað þá að binda kjör Íþróttamanns Íslands við slíkt. Auk þess má benda á að Magnús Scheving hlaut t.d. þessi verðlaun fyrir þolfimi 1994 og mér vitanlega er þolfimi ekki grein innan ÍSÍ. Auk þess hefur manni nú ekki sýnst að ýmsir fulltrúar sérsambanda innan ÍSÍ séu slíkar fyrirmyndir að ástæða sé til að útloka aðrar greinar frá verðlaunum sem þessum. En það eru auðvitað verðlaunin sem tekur niður fyrir þetta... og ekki í fyrsta sinn.


mbl.is Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu hvað það eru margir í heiminum sem stunda Bjj,  þessir svokölluðu íþróttafréttamenn eru alltaf að vitna í það þegar kemur að vali þessara verðlauna.  ps ég er hundfúll með það að Gunni sé ekki á meðal þessara top 10. 

Takk fyrir góðan pistill.

Kristján Magnússon (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 15:59

2 identicon

Þetta er ekki góð fréttamennska að mínu mati bara vegna þess að menn fá meira borgað í boltaíþróttum og að BJJ og mma er frekar nýtt og hefur ekki fengið almenilega ath fyrr en Gunni fór að rúlla þessu upp en það skal breytast

jóhann kristinsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 16:22

3 identicon

Ef að menn vilja kalla þetta ÍSÍ íþróttamaður ársins þá er auðvitað lítið við því að segja.  Fair enough.  En þau eru ekki kölluð því nafni núna.  Verðlaunin eru nefnd Íþróttamaður Ársins og sjá íþróttafréttamenn um valið.  Allir þeir sem stunda  íþróttir og teljast vera íþróttamenn hljóta því að koma til greina hvort sem þeir eru innan ÍSÍ, KSÍ eða bara BSÍ.  Það á ekki að skipta neinu máli. 

Mat á því hvort að verðlaun í einni grein íþrótta sé á einhvern hátt merkilegri en samskonar verðlaun í annarri grein íþrótta er örugglega erfið og sjálfsagt oft huglægt mat sem er látið ráða.  Auðvitað er hægt að horfa til þess hversu vinsæl íþróttagreinin er, hversu margir eru að iðka hana og reyna með því móti að fá einhverskonar línu yfir vægi verðlaunapeninga á milli greina. 

 Þessi umræða hefur komið upp áður og ég man t.d. eftir því þegar að ákveðin fatlaður íþróttamaður hafði náð gríðargóðum árangri í sinni íþróttagrein en kom samt ekki til greina sem íþróttamaður ársins það árið.  

Árangur Gunnars er ekki bara góður heldur er hann beinlínis lygilegur.  Ég hef sjálfur staðið mig að því að reyna að útskýra fyrir mönnum sem ekki eru kunnugir þessum heimi sem sjálfsvarnar eða bardagaíþróttirnar eru, hversu rosalega góður árangur þetta er hjá þessum mikla íþróttamanni og menn hafa oftar en ekki horft á mig eins og ég væri Baron Von Munchausen endurfæddur.  Yfirleitt enda þessar tröllasögur hjá mér á að googla myndir af glímu Gunnars við Jeff Monson á ADCC og ekki dregur það úr undrun manna.  

En spurningin er hvaða viðmið eru notuð hjá samtökum íþróttafréttamanna þegar valdir eru þeir einstaklingar sem taldir eru hafa skarað framúr.  Það hljóta að vera einhver skýr og klár mælitæki sem notuð eru til að mæla árangur hvers og eins og einhver regla um vægi verðlaunapeninga.  Menn hljóta að geta sýnt fram á með því að bregða árangri Gunnars undir ljós þessara mælitækja, að Gunnar hafi einfaldlega ekki staðið sig nægilega vel á árinu til þess að koma til greina. 

Án þess að gera lítið úr þeim sem eru tilnefndir þá þætti mér mjög fróðlegt að sjá hvern og einn í samanburði við árangur Gunnars og fá rökstuðning fyrir því hvað það var  nákvæmlega sem gerði hann  verðugan til tilnefningar til íþróttamanns ársins umfram Gunnar Nelson. 

Kristinn Edgar Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 17:25

4 identicon

Sæll.. sá bloggið eftir að þú commentaðir a fréttana á dv.is.

vill bara segja að Gunnar Nelson ætti af mínu áliti vera sjálfkrafa íþróttamaður ársins, það sem maðurinn hefur afrekað í ár er ótrúlegt og lætur það sem aðrir inná þessum top10 lista hafa gert líta ílla út og fréttamenn á íslandi líta enn verr út!

 auðvitað hefur þetta engin áhrif á Gunnar nema kannski styrkir hann.. og ég get ekki beðið eftir að sjá hann berjast í MMA á næsta ári!

Trausti Tryggvason (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 00:48

5 identicon

Úr reglum SÍ:

Aðeins íþróttamenn sem tilheyra sérsambandi innan ÍSÍ koma til greina í kjörinu. Ef íþróttamaður utan ÍSÍ fær atkvæði er sá atkvæðaseðill ógildur.

Sem gerir nafn Eiðs Smára og margra annarra þarna ógild því þeir tilheyra ekki félögum innan ÍSÍ, eða síðan hvenær var Barcelona þar?

Gestur (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 21:15

6 identicon

Ég pirrast alltaf hrikalega þegar kemur að umræðu í tengslum við íslenska íþróttafréttamenn en ætla samt að reyna að vera stuttorður.. Það er augljóst hneyksli að Gunnar skuli ekki einu sinni vera tilnefndur, þar sem að hann er að mínu mati fremsti íþróttamaður Íslands (með langflottasta recordið á árinu)! Þeir sem komast svo næst því að ná að kroppa í hælana á honum að mínu mati eru í einnig í íþróttum sem íslenskir íþróttasérfræðingar hafa aldrei heyrt talað um, þ.e. kraftlyftingum og aflraunum. Síðan er ég algerlega sammála þessu með ÍSÍ, það er algerlega fáranlegt ef íþrótafréttamenn takmarka í alvöru val sitt við meðlimi ÍSÍ, þá á titillinn að heita "ÍSÍ meðlimur ársins". Íslenskir íþróttafréttamann eru ekki í uppáhaldi hjá mér og eiga að skammast sín. Ég giska á að fótbolti dekki ca. 85% af heildarumfjöllun þeirra, þar á eftir kemur reyndar handbolti og golf með kannski sitthvor 5% og allar aðrar íþróttir í heiminum deila svo með sér 5%.
Ps. var bara að lesa kommentin á undan fyrst núna og það er skemmtilegt að sjá fasismann í reglum ÍSÍ.. aleg í stíl við mörg önnur órökstudd múv hjá þeim. Áfram Gunni og ú á heimska og þröngsýna íþróttafréttamenn;)

Árni Freyr Gestsson (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 18:45

7 Smámynd: GK

Bara til að leiðrétta giskið hjá Árna Frey hér að ofan þá þakti knattspyrna rúmlega 53% íþróttafréttaumfjöllunar á Íslandi árið 2006, þar á eftir kom handknattleikur með rúm 27%, körfuknattleikur með tæplega 8% og golf með rúmlega 5 %. Þá eru eftir 7% fyrir allar aðrar íþróttagreinar. Veit ekki hvort þessar tölur hafi breyst nokkuð á síðustu þremur árum.

Fjölmennustu íþróttagreinarnar árið 2007 eru (í þessari röð): Knattspyrna, golf, hestaíþróttir, fimleikar, handbolti og karfa.

GK, 31.12.2009 kl. 10:41

8 identicon

hehe já eins og ég sagði þá var ég bara að skjóta út í loftið eftir eigin tilfinningu en mér finnst þessi 53% vera ansi afgerandi meiri hluti miðað við fjölda íþrótta. Veistu samt hvort þetta sé  mælt í tíma að fjölda frétta? Knattspyrna mun halda áfram að vera lang fjölmennasta íþróttin á meðan að hún fær svona miklu meiri umfjöllun en aðrar íþróttir. Krakkar apa t.d. eftir það sem þeir sjá og hafa áhuga á því sama og félagarnir.. þetta er vítahringur að mínu mati hehe. Þetta er ástæðan fyrir því að lang lang flestir strákar æfa fótbolta einhverntíma sem krakkar en hætta svo því að þeir voru kannski ekki alveg jafn góðir og þeir bestu sem komust í liðið og fengu að spila. Þá verða þeir bara feitar fyllibyttur sem glápa alvitrir á þetta af miklum ofsa og tala svo annað slagið um að þeir hafi verið "einn efnilegasti fótboltamaður landsins í yngri flokkunum" þangað til eitthvað gerðist. Í staðinn gæti viðkomandi hafa fundið sig betur í einhverri annari íþrótt hefði hann kynnst henni fyrr og væri jafnvel heilbrigður og góður íþróttamaður í dag...

Árni Freyr Gestsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 19:41

9 identicon

Það eru nú bara þannig að það eru sérsambönd sem tilnefna sinn íþróttamann í íþróttamann ársins og svosem við sérsamband sem ekki er til á íslandi að sakast en ekki íþróttafréttamanna.

raggi (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 02:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Combat - bardagaíþróttir

Umfjöllun um bardagaíþróttir (bardagalistir), bæði á Íslandi og erlendis.

Höfundur

Halli Nelson
Halli Nelson

Nýjustu myndir

  • Gunnar Nelson vs Vinicius Magalhães
  • Þráinn Kolbeinsson, Gunnar Nelson og Sighvatur Helgason
  • Gunnar Nelson after the win over Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell

RSS-straumar

MMA fréttir

Mjölnir

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Fighters Only Magazine

Stærsta tímarit í Evrópu um MMA. Kemur út mánaðarlega.
  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband