Gunnari boðinn þátttaka á ADCC 2011

ADCCÞað er gaman að geta staðfest að Gunnari hefur verið boðinn þátttaka á ADCC 2011 sem fer fram á slóðum Hróa hattar í Nottingham á Englandi dagana 24.-25. september næstkomandi. Eins og margir vita er ADCC öflugasta og erfiðasta uppgjafarglímumót heims en það er haldið annað hvert ár víðs vegar um heiminn og af flestum talið óopinbert heimsmeistaramót í uppgjafarglímu (submission grappling).

Gunnar mun keppa í -77kg flokki en hann tók einnig þátt í síðasta ADCC móti sem fór fram í Barcelona 2009. Þá þurfti hann að keppa í -88kg flokki (þó hann væri eins um 80kg) þar sem -77kg flokkurinn var fullsetinn. Keppendur öðlast þátttökurétt á mótinu á tvennskonar hátt. Annars vegar með því að sigra sinn þyngdarflokk í undankeppni hverrar heimsálfu fyrir sig eða með því að fá boð mótshaldara (sem þykir mikill heiður). Gunnar hlaut einnig boð á keppnina fyrir tveimur árum og var þá fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þessari gríðarlega erfiðu keppni og vakti mikla athygli með því að lenda í fjórða sæti í opnum flokki m.a. með fræknum sigrum á Jeff Monson og David Avellan.

Undankeppnin í Evrópu fer fram í Turku í Finnlandi þann 21. maí nk. en 5 Íslendingar munu taka þátt í henni að þessu sinni og freista þess að vinna þátttökurétt á ADCC 2011 í Englandi. Af þessum 5 eru 4 úr keppnisliði Mjölnis en það eru þau Þráinn Kolbeinsson (-99), Sighvatur Magnús Helgason (-88), Axel Kristinsson (-66) og Auður Olga Skúladóttir (+60). Þá mun Arnar Freyr Vigfússon (-77) frá Combat Gym einnig keppa í undankeppninni.

Gunnar dvelur núna í Manchester og Dublin við æfingar en kemur heim 18. maí og stefnir síðan að því að fara til New York og víðar til frekari undirbúnings fyrir keppnina í lok september. Fyrir þá sem hafa áhuga þá er hér myndaalbúm frá ADCC 2009.


Gunni og Stebbi studdu gott málefni

Gunnar mætti á góðgerðarviku Verzló til að glíma við Stefán Geir og safna áheitum til styrktar börnum í Úganda. Mikill fjöldi mætti til að horfa á Mjölniskappanna takast á. Rétt er að benda á að Jón Viðar tók ekki síðra video af glímunum en það sem birtist á mbl.is. Á videoinu sem hann tók upp má líka sjá aukaglímuna sem ekki er á mbl. Hér er upptaka Jóns Viðars:

 

Gunnar Nelson VS Stefán Geir í Versló (2011) from Mjolnir MMA on Vimeo.


mbl.is Gunnar Nelson lúskrar á Verslingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur keppenda frá Mjölni á Danish Open

Keppendur Mjölnis á Danish OpenÍslenskir keppendur úr Mjölni hafa heldur betur verið að gera garðinn frægan undanfarið. Um síðustu helgi flugu nokkrir keppendur frá Mjölni til Kaupmannahafnar til þátttöku á Opna danska meistaramótinu. Skemmst er frá því að segja að Íslendingarnir tryggðu sér 9 verðlaun á mótinu. 4 gull, 1 silfur og 4 brons.

Sighvatur Helgason kom sá og sigraði sigraði í -88kg flokki í fjólubláu belti og opna flokkinn (fjólublátt belti). Sighvatur náði uppgjafartaki á alla sem hann keppti við nema Mjölnismanninn Þráinn Kolbeinsson, en mættust þeir í undanúrslitum í opna flokknum. Sigurjón Viðar Svarvarsson náði gulli í +100 (blátt belti) og í úrslitum sigraði hann keppanda sem var hátt í 40kg þyngri en hann sjálfur. Þráinn Kolbeinsson sigraði -94kg flokkinn og var í þriðja sæti í opna flokknum (fjólblátt belti). Bjarni Kristjánsson vann til silfurverðlauna -94kg (blátt belti) og brons í opna flokknum. Auður Olga Skúladóttir vann bronsið í -64kg (fjólublátt). Loks nældi Guðmundur Víglundsson sér í brons í sínum þyngdarflokki í hvítbeltaflokki 30-35 ára keppenda.

Tæpur mánuður er síðan annar keppandi frá Mjölni, Jósep Valur Guðlaugsson, vann gullið á Evrópumeistaramótinu í 82kg flokki blábeltinga 30-35 ára.

Skyldi einhver vera að velta fyrir sér af hverju Gunnar er ekki meðal keppenda þá hefur hann tekið sér frí frá keppni fyrri hluta ársins og jafnvel fram á haust.


Gunnar á lista Sherdog.com yfir 10 efnilegustu

SherdogGunnar er á lista stærsta MMA vefs í heimi, Sherdog.com, yfir þá 10 bardagaíþróttamenn í Evrópu sem fréttamenn vefsins telja að menn ættu helst að hafa augun opin fyrir 2011 (10 Europeans to Watch). Í greininni segir m.a. að Gunnar sé "perhaps the truest bona fide elite prospect on the European scene today." Þá segir í lok greinarinnar að "Nelson is the total package, and the only things that will hold him back in 2011 are opponents not wanting to face him, or a decision to focus on ADCC 2011."

Þess má geta að Gunnar hefur hugsað sér að keppa ekkert fyrra hluta þetta árs, í það minnsta, heldur einbeita sér að æfingum og ákveðnum hlutum í "vopnabúri" sínu. Hann hefur ekki enn tekið neinar ákvarðanir um það hvað gerist í haust en gerir ráð fyrir að keppa ekki mikið á þessu ári í heildina heldur stefna meira á árið 2012 til þess. 


Gunnar valinn "Maður fólksins" á sport.is

Gunnar Nelson kjörinn Maður fólksins 2010Gunnar var valinn "maður fólksins 2010" á íþróttavefnum sport.is en hann fékk flest atkvæði lesenda vefsins um íþróttamanna ársins. Atkvæði þeirra giltu helming á móti atkvæðum fréttamanna vefsins sem kusu Aron Pálma íþróttamann ársins. Fyrir kjörið hlaut Gunnar bikar viðurkenningarskjal og bókina Íslensk knattspyrna 2010, sem okkur sem þekkjum hann finnst frekar fyndið því við vitum að hann er hvorki lestrarhestur á bækur né hefur nokkurn einasta áhuga á fótbolta LoL

Við stuðningsmenn Gunnars og bardagaíþrótta á Íslandi þökkum lesendum sport.is fyrir kjörið.

Hér er videoviðtal við Gunnar sem tekið var í dag af þessu tilefni.

Myndin hér til hliðar er tekin af frétt á sport.is


Gunnar í Nærmynd

Gunnar var í Nærmynd í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld. Hér er þátturinn.

Gunnar Nelson highlight video

Mögnuð mynbrot frá hinum ýmsu bardögum, glímum og æfingum Gunnars síðustu árin.

Klippt af Jóni Viðari Arnþórsssyni hjá Mjölni. Hér eru fleiri video af glímum Gunnars og öðru efni tengdum honum og Mjölni.


Mögnuð stemning og flott glíma

Þetta var mögnuð stemning í Laugardalshöllinni á laugardaginn þegar Gunnar mætti Michael Russell í No-Gi glímu. Russell sem er 26 ára var á sínum tíma yngsti Bretinn (og er enn) til að fá svart belti í BJJ. Það má því segja það þarna hafi mæst tvö yngstu svart belti Evrópu í sportinu og Englendingar höfðu haft orð á því að Michael Russell væri eini keppandi þeirra í sama þyngdarflokki og Gunnar sem hugsanlega gæti unnið hann. Það fór þó á annan veg því Gunnar sigraði örugglega á fjögurra mínútna glímu. Gunnar tók Michael niður strax á upphafs sekúndum eftir að Michael reyndi það sem mér sýndist að ætti að vera einskonar flying Guillotine. Michael varðist vel úr guard en Gunnar sótti látlaust og komast loks framhjá guardinu hjá Englendingnum, náði bakinu á honum og hengdi hann til uppgjafar. Flottur sigur fyrir framan um tvö þúsund áhorfendur sem létu ekki sitt eftir liggja að hvetja okkar mann.

 Hér er svo glíman sjálf:


mbl.is Gunnar Nelson vann Russel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi „lifandi“ þjálfunar í bardagaíþróttum

Ég henti nokkrum hugsunum á blað vegna umræðu sem spannst annarsstaðar um Aikido og hvort sú „bardagalist“ virki við raunverulegar aðstæður. Þessi umræða kemur alltaf upp öðru hverju og afar athyglisvert að sjá viðbrögð við þeirri umræðu oft á tíðum. Áður en lengra er haldið, og til að taka af allan vafa fyrir þá sem ekki þekkja skoðanir þess sem þetta skrifar, þá skal ég strax taka fram að Aikido er að mínu mati (og ég er ekki einn um þá vissu) í besta falli gagnslítið og hugsanlega gagnslaust sem sjálfvarnaríþrótt, í það minnsta eins og það er víðast kennt í dag. Aikido hefur litla eða enga virkni við raunverulegar aðstæður þar sem um alvöru árás eða átök er að ræða. Það þýðir auðvitað ekki að Aikido geti ekki veitt þeim sem það stundar ánægju og gleði eða gert þeim gott á marga vegu. Um það deili ég ekki. En slíkt á auðvitað líka við um margt annað en það gerir það ekki að virkri bardagatækni eftir sem áður. Þetta eru náttúrlega engin ný sannindi og menn hafa lengi átt í þessari baráttu innan martial arts, þ.e. baráttunni gegn allskyns mýtum og blekkingum. Sjálfur varð ég fyrst áþreifanlega var við þetta eftir að hafa upplifað muninn á „Kung Fu“ þjálfun sem ég fiktaði við fyrir um 30 árum eða og svo full contact kickboxi sem ég stundaði á Keflavíkurflugvelli í kjölfar þess. Einnig eftir að hafa stundað einhverslags sambland af World Jiu Jitsu/Aikido (var nú bara kallað Jujitsu af þeim sem það kenndi) og fara síðan á Judo æfingar og vera pakkað saman vinum mínum (Magnúsi Haukssyni o.fl.) í Keflavík. Það var fínt reality check en síðan hefur auðvitað mikið vatn runnið til sjávar og allt framboð á bardagaíþróttum orðið mun fjölbreyttara og betra í dag og umræðan opnari... svona yfirleitt. Enn er þó mikið verk óunnið í að efla veg bardagaíþrótta hér á landi, sem og annarsstaðar, og að vinna gegn öllum þeim villuljósum sem kveikt eru til að afvegaleiða þá sem ekki vita betur og eru í góðri trú að nema eitthvað sem þeir telja að veiti þeim raunverulega bardagafærni og/eða kenni þeim alvöru sjálfsvörn.

Og þarna liggur hundurinn grafinn. Nefnilega í þeirri staðreynd að t.d. Aikido er iðulega auglýst sem „sjálfsvörn“ sem það er ekki og þar með er verið að selja fólki falska vöru, eða eigum við að segja að selja því annað en það telur sig vera að greiða fyrir. Verra er þó að slíkar fullyrðingar geta beinlínis veitt fólki falsa öryggistilfinningu og látið það vaða í þeirri villu að það ráði við aðstæður sem eru því gjörsamlega ofviða. Þetta er reyndar ekkert nýtt í heimi bardagaíþrótta eða bardagalista (martial arts). Það er með hreinum ólíkindum hversu mikið bull og þvæla hefur viðgengist gegnum tíðina, allskyns peningaplokk dulbúið sem bardagalist. Alltaf reglulega spretta upp einhverjir „gúrúar“ og „senseiar“ sem halda því fram að þeir geti jafnvel yfirbugað andstæðinga sína með leyndri orku og slegið þá niður án þess að snerta þá og guð má vita hvað. Aðspurðir hafa þessir sjálfskipuðu „snillingar“ iðulega numið tækni sína af „leyndum austurlenskum meisturum“ sem dvelja í hlíðum Himalaya eða einhversstaðar í myrkustu frumskógum Asíu eða annarsstaðar þar sem enginn finnur þá. Og auðvitað finnur engin þá sem ekki eru til og hafa aldrei verið til. Eitt af einkennum þessara nýju gúrúa, sem selja ósigrandi tækni sína á markaðstorgum Vesturlanda, er að þeir geta bara sýnt fram á getu sína með sínum eigin nemendum sem eru meðvirkir í blekkingunni. Þeir geta hins vegar aldrei sýnt þetta við raunverulegar aðstæður gegn ómeðvirkum andstæðingi. Stundum hefur það gerst að menn hafa verið orðnir svo sjálfdauna eigin blekkingum að þeir hafa verið farnir að trúa þeim sjálfir og þá jafnan verið afhjúpaðir þegar þeir látið á þetta reyna í algjöru dómgreindarleysi. Yfirleitt er það þó þannig að þegar þeir hafa verið kallaðir fram til að sanna getu sína gegn andstæðingi sem ekki er „samvinnufús“ þá hafa með sett upp mysterískan helgisvip (þannig að þeir virðast helst ætla að bresta í bæn) og haldið því fram að tækni þeirra sé svo hættuleg og banvæn að það sé því miður ekki hægt sýna hana við raunverulegar aðstæður. Þegar menn eru þá bara beðnir um að sýna það sem þeir sýndu með nemendum sínum (sem allir lifðu þó af) hefur verið fátt um svör og ofurmennin iðulega sagst vera „yfir það hafnir“ að þurfa að sanna sig. Þeir hafa hins vegar auðvitað ekki verið of heilagir til að taka við háum greiðslum eða verið yfir það hafnir að sýna „kraftana og ofurtæknina“ með réttum meðvirkum andstæðingum.

Nú er ég ekki að segja að því sé haldið fram í Aikido að menn geti yfirbugað andstæðinga sína með „duldum kröftum“ þó dæmi um slíkt megi vafalítið finna hér og þar. En Aikido er þó langt frá því að vera laust við blekkingar í mörgum tilfellum. Blekkingarnar felast einfaldlega í því sem áður hefur verið nefnt, nefnilega að halda því fram að Aikido sé sjálfsvörn og veiti þannig mönnum tækni sem virki gegn raunverulegum árásarmanni. Á vefsetri Aikido.is segir að í Aikido sé „áhersla lögð á að æfingafélagar vinni saman að því að bæta sig í stað þess að keppa að árangri á kostnað annarra“ (stafsetningaleiðréttingar mína). Gott og blessað. En hvernig getur þá verið um virka sjálfsvörn að ræða? Hvernig getur árásarmaðurinn og fórnalambið unnið saman? Gerist slíkt í raunverulegum aðstæðum? Í myndböndum af Aikido eru „meistararnir“ iðulega sýndir henda „andstæðingum“ sínum til og frá með örlítilli hreyfingu og því haldið fram að þetta sé gert með því „að beina krafti andstæðings frá sér“ svo aftur sé vísað til Aikido.is. Notkun á krafti andstæðingsins er alþekkt í virkum bardagaíþróttum eins og MMA, BJJ og Judo en í Aikido er því miður sjaldnast um slíkt að ræða, heldur er andstæðingurinn fullkomlega meðvirkur og rúllar sér til og frá í samræmi við það sem til hans er ætlast. Útkoman yrði hins vegar auðvitað allt önnur ef „andstæðingurinn“ myndi beita sér í alvöru og væri ekki meðvirkur þeim sem er að „verjast“ árásinni. Og þegar menn æfa ekki með lifandi“ og raunverulegri mótspyrnu þá munu menn aldrei ná virkri tækni við alvöru aðstæður og því getur ekki verið um neina sanna sjálfsvörn að ræða né raunverulega bardagagetu. Aikido kennarinn sem „þeytir“ mönnum til og frá þegar hann sýnir „færni“ sína gæti því aldrei geta gert neitt þessu líkt gegn neinum sæmilega hraustum andstæðingi sem ekki tæki þátt í leiknum, hvað þá einhverjum sem hefði t.d. æft MMA, BJJ, Judo eða aðra lifandi bardagaþjálfun. Þess vegna er Aikido ekki raunveruleg sjálfsvörn eða bardagatækni að mínu mati þó ástundum þess geti vafalítið verið bæði skemmtileg og gagnleg að mörgu öðru leyti.

Því miður hafa menn einfaldlega verið of passífir í að stíga fram og benda á þá staðreynd að dauð form virki ekki sem bardagatækni. Þegar menn þó gera það rísa hinir og þessir upp á afturlappirnar (iðulega kennarar og nemendur í dauðum formum sem sumir vita ekki betur) og mótmæla hástöfum. Rökin felast hins vegar í upphrópunum og ásökunum um hroka, hortugheit og fleira í þeim dúr en aldrei geta menn sýnt fram á virknina (enda ekki hægt að sýna fram á það sem er ekki til staðar) og sem oft áður gusa þeir mest sem grynnst vaða. Þeim sem bendir á blekkinguna líður iðulega eins og verið sé að þræta við fávísu bæjarbúana í dæmisögunni sem héldu að spegilmynd tunglsins í tjörninni væri tunglið sjálft og það hefði hrapað af himnum. Það þýddi ekkert að benda þeim á að alvöru tunglið væri þarna uppi á himnum, skærara og raunverulegra en flöktið í vatninu. Fávísu bæjarbúarnir sáu spegilmyndina í pollinum og þar við sat. Til að kóróna vitleysuna reyndu þeir síðan að fanga tunglið í tjörninni til að koma böndum á það. Þeim varð auðvitað jafn ágengt í því og þeim sem æfa dauð bardagaform verður ágengt í því að öðlast alvöru bardagafærni.

Að lokum. Til að forðast allan misskilning þá held ég því ekki fram að einhver ein bardagaíþrótt sé öðrum betri eða æðri. Ég veit að svo er ekki heldur þurfa menn helst að iðka sambland af ýmsum til að ná alvöru bardagahæfni og getu, sé það markmiðið. Ég veit það hinsvegar að dauð bardagaform munu ekki skila mönnum neinni alvöru bardagagetu. Til þess að ná slíku þarf þjálfunin að vera lifandi, raunhæf og falslaus. Það besta fyrir þá sem hafa æft dauða og óvirka „bardagatækni“ hingað til er að staldra aðeins við, hugsa málið og vera hreinskilnir við sjálfan sig. Ef þeir síðan hafa áhuga á að öðlast alvöru bardagafærni þá er bara að taka þau mál föstum tökum og snúa sér að lifandi bardagaíþrótt. Ef maður er á villigötum þá þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og horfast ekki í augu við þá staðreynd. Það verður einfaldlega að leiðrétta stefnuna til að komast rétta leið. Sannleikurinn mun gera menn frjálsa.


Frábær árangur hjá keppendum Mjölnis

Þráinn Kolbeinsson, Gunnar Nelson og Sighvatur HelgasonKeppendur frá Mjölni komu svo sannarlega, sáu og sigruðu á þessu Íslandsmeistaramóti. Unnu 10 Íslandsmeistaratitla af 12 mögulegum og langflest önnur verðlaun á mótinu líka. Heildarúrslitin eru m.a. á vefsetri Mjölnis. Á myndinni hér til hliðar má sjá verðlaunahafa í opnum flokki karla, allir úr Mjölni.

Ég er líka mjög stoltur af Gunnari sem hefur, líkt og kemur fram í viðhengdri frétt Mbl., unnið allar glímur sínar á öllum Íslandsmeistaramótum sem haldin hafa verið í BJJ. Frábær árangur hjá honum, ekki síst núna með tilliti til þess að hann hefur varla farið í Gi í heilt ár!

Frétt Stöðvar 2

Frétt RÚV


mbl.is Gunnar og Auður Olga unnu tvöfalt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Combat - bardagaíþróttir

Umfjöllun um bardagaíþróttir (bardagalistir), bæði á Íslandi og erlendis.

Höfundur

Halli Nelson
Halli Nelson

Nýjustu myndir

  • Gunnar Nelson vs Vinicius Magalhães
  • Þráinn Kolbeinsson, Gunnar Nelson og Sighvatur Helgason
  • Gunnar Nelson after the win over Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell

RSS-straumar

MMA fréttir

Mjölnir

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Fighters Only Magazine

Stærsta tímarit í Evrópu um MMA. Kemur út mánaðarlega.
  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband