Gunnar Íþróttahetja ársins 2009 hjá DV og í vali sem maður ársins á visir.is

Það er gaman að segja frá því að Gunnar var útnefndur Íþróttahetja ársins 2009 í DV í dag, föstudaginn 30. desember. Gunnar er jafnframt einn af tíu sem eru í vali sem maður ársins á visir.is. Eins og áður hefur komið fram hér á blogginu þá var Gunnar ekki kjörgengur hjá Samtökum íþróttafréttamanna í vali um Íþróttamann ársins 2009 þar sem Mjölnir er enn ekki innan ÍSÍ en það er frekar langt og strangt ferli. Reyndar þykir mér það skjóta skökku við íþróttafréttamenn skuli aðeins líta til greina innan ÍSÍ í sínu vali og væri nær að ÍSÍ sæi sjálft um að velja sinn mann en íþróttafréttamenn veldu íþróttamann ársins óháð því hvaða íþrótt hann stundar og hvort hún tilheyri einhverju sérsambandi eður ei.

Gunnar ekki á þessum lista yfir 10 bestu

Gunnar er ekki á lista yfir 10 bestu íþróttamenn ársins á Íslandi samkvæmt frábæru vali íslenskra íþrótta„fréttamanna“. Maður hlýtur auðvitað að vera þakklátur yfir að við Íslendingar skulum eiga svona góða íþrótta„fréttamenn“ sem eru svona vel að sér í heimi íþróttanna og gersneyddir öllum fordómum í garð annarra íþrótta en boltaíþrótta, sunds og frjálsra. Vissan um að þeir séu að horfa vel í kringum sig og velji þá bestu fyrir okkur hin hríslast um mann og hvar værum við án slíkra fagmanna sem þessara? Þökk sé þeim.

Sennilega blikna sigrar Gunnars miðað við þau heimsafrek sem margir á lista íþrótta„fréttamannanna“ hafa gert á árinu en þar sem mér er málið skylt ætla ég að lofa mér að geta svona um helstu verðlaun hans á árinu sem nú er að liða:

  • Mars: Gullverðlaun á Pan Jiu-Jitsu Championship í Kaliforníu. Mótið er annað stærsta BJJ Gi-mót í heimi sem haldið er ár hvert. 2400 keppendur tóku þátt í mótinu.
  • Apríl: Gull- og bronsverðlaun á New York opna meistaramótinu í Jiu Jitsu (New York International Open Jiu-Jitsu Championship 2009). Gunnar sigraði sinn þyngdarflokk og lenti í þriðja sæti í opnum flokki. Þess má geta að Gunnar var hársbreidd frá því að komast í úrslit í opnum flokki en hann tapaði í undanúrslitum fyrir sér miklu þyngri andstæðingi á minnsta mögulega stigamun.
  • Júní: Silfurverðlaun á Heimsmeistaramótinu í BJJ (World Jiu-Jitsu Championship 2009 eða Mundials) í Kaliforníu sem er stærsta Gi-mót í heimi sem haldið er ár hvert með á þriðja þúsund keppendur. Sló m.a. út heimsmeistara frá síðasta ári og fékk gríðarlegt lof fyrir sókndirfsku en hann var að sigra úrslitaglímuna þegar aðeins 30 sekúndur voru eftir. Þá reyndi hann lás sem tókst ekki og við það fékk andstæðingur hans 2 stig sem dugðu til sigurs á minnsta mun. Árangur Gunnars og sóknarstíll varð til þess að honum var boðinn þátttaka á ADCC 2009 sem er sterkasta glímumót í heimi og haldið annað hvert ár.
  • September: 4. sætið í opnum flokki á ADCC í Barcelona eftir að hafa m.a. sigra Jeff Monson og Dave Avellan. ADCC er án efa sterkasta glímumót í heimi en mótið er haldið annað hvert ár og þangað er aðeins boðið þeim 16 bestu í hverjum þyngdarflokki en Gunnar þurfti að keppa 11 kg upp fyrir sig í þyngdarflokki þar sem hann þyngdarflokkur var fullsetinn þegar ákveðið var að bjóða honum sæti á mótinu. Auk þess keppti Gunnar í opnum flokki en opni flokkurinn er valinn á síðasta mótdegi og þar eru aðeins 16 sæti alls. Að lenda í fjórða sæti í opna flokknum á ADCCr er með ólíkindum, ekki síst þegar horft er til þess að Gunnar var léttasti keppandinn í opnum flokki og lagði þann þyngsta og reyndasta sem var 40kg þyngri en Gunnar!
  • Október: Gull- og silfurverðlaun á Pan No-Gi Championship 2009 sem haldið var í New York og silfurverðlaun á Opna Norðurlandameistaramótinu í BJJ í Stokkhólmi. Gunnar sigraði sinn þyngdarflokk í New York og lenti í 1.-2. sæti í opnum flokki en hann hlaut  silfrið eftir hlutkesti gullverðlaunin þar sem hann var í efsta sæti ásamt æfingafélaga sínum úr sama liði og þá er ekki glímt um gullið.
  • Nóvember: Tvenn gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í BJJ. Gunnar sigraði bæði sinn þyngdarflokk og opna flokkinn með miklum yfirburðum. Vann allar 11 glímur sínar örugglega án þess að nokkur andstæðinga hans næði að skora svo mikið sem eitt stig gegn honum.

Ég hef fengið bæði heimsóknir, símtöl og tölvupósta í dag þar sem menn furða sig á því að Gunnar skuli ekki vera á listanum. Einhverjir höfðu haft samband við einhverja íþróttafréttamenn og spurt út í þetta en m.a. fengið þau svör að íþróttir Gunnars séu ekki innan ÍSÍ og því sé hann ekki gjaldgengur í þetta kjör. Slík rök standast auðvitað enga naflaskoðun. Í fyrsta lagi þá eru til fleiri íþróttir en þær sem eru undir hatti ÍSÍ og það getur einfaldlega ekki verið hlutverk íþróttafréttamanna sem vilja láta taka sig alvarlega að skrifa eingöngu eða horfa til íþrótta sem þar eru undir, hvað þá að binda kjör Íþróttamanns Íslands við slíkt. Auk þess má benda á að Magnús Scheving hlaut t.d. þessi verðlaun fyrir þolfimi 1994 og mér vitanlega er þolfimi ekki grein innan ÍSÍ. Auk þess hefur manni nú ekki sýnst að ýmsir fulltrúar sérsambanda innan ÍSÍ séu slíkar fyrirmyndir að ástæða sé til að útloka aðrar greinar frá verðlaunum sem þessum. En það eru auðvitað verðlaunin sem tekur niður fyrir þetta... og ekki í fyrsta sinn.


mbl.is Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar í viðtali á MMA Spot

MMA Spot
Gunnar Nelson vs Jeff MonsonBardagaíþróttavefurinn MMA Spot var að birta ítarlegt viðtal við Gunnar. Í viðtalinu er Gunnar m.a. spurður út í óvæntan sigur sinn á hinum goðsagnakennda Jeff Monson á ADCC 2009 í september og hvort hann hyggist keppa í MMA á næstunni. Aðspurður segir Gunnar það hafa verið auðvelt og eðlilegt val að færa sig yfir í MMA og BJJ úr karate. Hann hafi átt góð ár í karate en eftir að hann kynntist MMA og BJJ hafi honum fundist karate of takmarkað enda hafi hann þegar verið orðinn hugfanginn af bardagalistinni og því hafi verið eðlilegt að fara yfir í sannara og heiðarlegra form þeirrar listar. Gunnar segist stefna á stóru keppnirnar í MMA í framtíðinni en hann vildi ekki skuldbinda sig þeim um of á þessum tímapunkti, sér liggi ekkert á, margt sé að læra og hann vilji láta hlutina gerast með sínum eðlilega hraða. Þá kveðst Gunnar ætla að reyna að æfa eins mikið hér heima og hann geti, enda líði honum hvergi betur en á Íslandi, með fjölskyldu og vinum og hjá Mjölni. Best þó í sveitinni hjá afa sínum og ömmu á Ólafsfirði Smile


Gunnar ofarlega á MMA styrkleikalista FightBomb

FightBombÞað er gaman að segja frá því að Gunnar er nr. 5 á heimsstyrkleikalista MMA vefsins FightBomb yfir MMA keppendur í veltivigt, 25 ára og yngri, sem ekki eru með samning við eitt af fjórum stærstu MMA samböndunum (UFC, Strikeforce, DREAM eða Sengoku). Fyrir ofan Gunnar eru Englendingur, tveir Bandaríkjamenn og Norðmaður. Allir eru þeir með fleiri bardaga á sínum ferli og eldri en Gunnar. FightBomb birti listann fyrir síðustu helgi en hann nær yfir 25 efstu í hverjum þyngdarflokki. Á heildarlista yfir MMA bardagaíþróttamenn í öllum aldurshópum, sem ekki eru með samning við risana fjóra, er Gunnar í 13. sæti í veltivigt og þeir sem eru fyrir ofan hann eru einnig allir eldri og reyndari en hann.

Það er ansi athyglisvert hversu hátt Gunnar er settur á listann, ekki síst með tilliti til þess að hann hefur ekki keppt í MMA síðan í september í fyrra, því hann hefur einbeitt sér þetta árið að keppnum í Grappling og BJJ. Frábær árangur hans á árinu á sterkustu glímumótum í heimi skilar honum hins vegar svona ofarlega ásamt þeirri staðreynd að hann er ósigraður í MMA á ferlinum með 5 sigra undir belti.

Eins og fram kom hér í júní var Gunnar í 4. sæti á lista Sherdog yfir 10 efnilegustu MMA menn í Evrópu (samningslausa 23 ára og yngri) og þeir þrír sem voru fyrir ofan hann voru allir eldri, reyndari og í hærri þyngdarflokkum. Gunnar stefnir af því að keppa einhverja MMA bardaga á næsta ári.


Frábært Íslandsmeistaramót

Auður Olga og Gunnar sigruðu opnu flokkanaÞetta var frábært mót í alla staði. Fjöldi keppanda að aukast um tæp 70% frá síðasta ári, fullt af áhorfendum og bein útsending á SportTV. Sveppi og Auddi settu líka skemmtilegan svip á þetta með sinni heimsókn. Gunnar varði titilinn sinn frá því í fyrra. Vann bæði sinn þyngdarflokk og opna flokkinn án þess að skorað væri eitt einasta stig á hann en sama var uppi á tengingnum á síðasta ári. Og líkt og í fyrra mætti hann Ingþóri Erni Valdimarssyni í úrslitum í opnum flokki en Ingþór sigraði +100kg flokkinn á mótinu í ár og munar 26kg á þeim félögum. Í fyrra vann Gunnar úrslitin á stigum en nú neyddi hann Ingþór til uppgjafar með hengingu (guillotine). Auður Olga vann opinn flokk kvenna og Mjölnir varð sigurlið mótsins með langflesta sigra (m.a. öll gull nema eitt) af þeim 5 félögum sem tóku þátt. Ég hef annars eiginlega engu að bæta við þá umfjöllun sem þegar er komin um mótið en nokkrir tenglar eru hér að neðan:

Þá var ágæt umfjöllun og viðtal við Gunna í fréttatíma sjónvarpsins á sunnudagskvöldinu og örfrétt á Stöð 2 á mánudagskvöldið. Það verður þó meira í þættinum hjá Audda og Sveppa á Stöð 2 næsta föstudag (13. nóv.) í opinni dagskrá. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá síðustu sekúndurnar í úrslitaglímunni milli Gunnars og Ingþórs í opnum flokki.

Gunnar sigrar Ingþór

Hér er líka myndband af YouTube sem bardagi.is hefur tekið saman.

Að lokum má geta þess að Gunnar flaug til Manchester morguninn eftir Íslandsmótið en hann mun dvelja þar og í Dublin við æfingar næsta mánuðinn og kemur svo heim 11. desember.


mbl.is Sigursælir Mjölnismenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11 ný belti hjá Mjölni og tilkynning um risastækkun!

Í gær var stór dagur hjá Mjölni. Fyrst mættu um hundrað manns á æfingu kl 18:00 þar sem alls ellefu manns voru látnir þreyta “Iron-man” þolraun þar sem þeir glímdu við nýja og ferska æfingafélaga í um tuttugu mínútur hver án þess að fá hvíld. Að því loknu var tíu þeirra gefið bláa beltið og sá ellefti, Sighvatur Helgason, fékk fjólubláa. Sighvatur er aðeins 17 ára og eins og flestir muna þá keppti hann í fullorðinsflokk á Opna Skandinavíska þar sem hann fór með sigur úr bítum.

11 ný belti hjá Mjölni

Á myndinni hér að ofan eru þeir sem fengu beltin ásamt þremur þjálfurum. Á myndina vantar Tómas Gabríel sem fékk blátt belti í gær. Á myndinni eru eru:
Efri röð: Vignir Már (blátt), Sigurjón Viðar (blátt), Sighvatur (fjólublátt), Stefán Geir (blátt), Jósep Valur (blátt), Axel (blátt) og Pétur Marinó (blátt).
Neðri röð: Tómas Hrafn (blátt), Daníel (þjálfari), Bjarni (þjálfari), Gunnar (þjálfari), Halldór Már (blátt) og Davíð (blátt).

Við óskum þessum nýju blá- og fjólublábeltingum til hamingju með árangurinn.

Eftir æfinguna tilkynnti stjórn Mjölnis að von væri á James Davis aftur til Mjölnis. James er félagsmönnum vel kunnugur og kenndi þrjá mánuði hjá félaginu við miklar vinsældir í fyrra. Nú stefnir hann á að vera í a.m.k eitt ár.

Stórtíðindi kvöldsins voru svo að Mjölnir er að fara að stækka! Við höfum tryggt okkur húsnæðið við hliðina á okkar húsnæði og fáum það afhent um mánaðarmótin. Þá tökum við niður veggina og klárum að innrétta í desember ef vel gengur. Þetta er meira en 50% stækkun á æfingaplássinu!

Mjölnir er því áfram stærsta MMA/BJJ gym á Íslandi, nú með:

  • 550m2 gym.
  • Tveir stórir salir. Sem hægt er að sameina í einn risa sal.
  • Alvöru keppnisbúr (octagon)
  • Fullkomin aðstaða fyrir réttstöðu, hnébeygju og bekkpressu.
  • 200 Ketilbjöllur
  • Pro aðstaða fyrir MMA
  • Stór Clinch veggur
  • Ótal önnur æfingartæki tengt bardagaíþróttum og functional strength
  • Gufubað
  • Búningsklefar og sturtur
  • Setustofa með flatskjá þar sem hægt er að horfa á alla helstu MMA og BJJ viðburði.

Sjá nánar mynd af stækkuninni (PDF snið)


Gunnar með silfur og alls 8 medalíur til Mjölnis á Scandinavian Open

Gunnar keppti í gær í úrslita í -88 kg flokki en tapaði þar naumlega fyrir Ricardo Oliveira með 1 advantage eftir að glíman endaði 2-2. Fyrirfram var Oliveira talinn einn sigurstranglegasti keppandi mótsins, enda einn besti BJJ keppandi í heimi (í Gi) og þarf nú varla að kynna fyrir mönnum. Hann er í feikna formi þessa dagana og var meðal annars boðinn þátttaka í ADCC World Pro BJJ Cup sem er aðeins fyrir þá bestu í Gi. Hann er jafnframt silfurverðlaunahafi frá  Evrópumótinu 2008 (Gi) þar sem hann tapaði naumlega í úrslitum fyrir Alexandre de Souza sem eins og sumir vita vann m.a. þyngsta flokkinn World Pro Jiu Jitsu Cup. Sem dæmi um styrkleika World Pro Cup þá lenti Braulio Estima, sem vann bæði sinn flokk og opna flokkinn á ADCC, í fjórða sæti í sínum þyngdarflokki þarna og komst ekki á blað í opnum flokki.

Enn allavega, silfur hjá Gunnari á Scandinavian Open í -88kg.

Þráinn lenti í öðru sæti og Sighvatur í því þriðja í opnum flokki blábelta í gær og í heildina hlaut því Mjölnir (og þar með Ísland) 2 gull, 3 silfur og 3 brons á Scandinavian Open, þ.a. eitt silfur í black belt. Ekki slæmt hjá ungum klúbbi og sannar enn betur hversu góð kennslan er hjá Mjölni.

Hins vegar klúðruðu mótshaldara ansi miklu á þessu móti, sérstaklega gagnvart Jóhanni sem fékk ekki að keppa í gær þrátt fyrir loforð á laugardaginn eftir klúður mótshaldara þá þegar þeir gleymdu að kalla hann upp og DQ-uðu hann. Ég er hér í fyrri færslu búinn að segja frá þessu og dómaraklúðrinu gagnvart Gunnari í opna flokknum. Sannarlega ekki til fyrirmyndar hjá mótshöldurunum en Mjölnir getur vel við unað við árangurinn á sínu fyrsta alþjóðlega móti. Frábært hjá okkar fólki. Hér er samantekt á verðlaunum Íslendinganna á mótinu:

  • Gunnar Nelson (svart) vann silfur í -88kg flokki.
  • Sighvatur Helgason (blátt) vann gull í -88kg og brons í opnum flokki.
  • Þráinn Kolbeinsson (blátt) vann brons í -94kg og silfur í opnum flokki.
  • Bjarni Kristjánsson (blátt) vann brons í -100kg flokki.
  • Auður Olga Skúladóttir (blátt) vann silfur í -64kg flokki.
  • Vignir Már Sævarsson (hvítt) vann gull í -82kg öldungaflokki (36-40 ára).

Íslensku keppendurnir á Scandinavian Open 2009


Fjöldi verðlauna okkar fólks á fyrri degi Scandinavian Open

Frábær frammistaða okkar fólks og klúður mótshaldara einkenndu fyrri dag Opna Norðurlandameistaramótsins. Íslensku keppendurnir (allir úr Mjölni) unnu til tveggja gullverðlauna, einnar silfurverðlauna og tvennra bronsverðlauna í þyngdarflokkum blábelta og öldungaflokki hvítbelta í dag. Sighvatur Helgason vann gull í -88,  Auður Olga Skúladóttir vann silfur í -64, Þráinn Kolbeinsson vann brons í -94 og Bjarni Kristjánsson vann brons í -100. Þetta var allt í blábeltaflokkum. Vignir Már Sævarsson vann svo til gullverðlauna í öldungaflokki hvítbelta (36-40 ára). Frábær árangur!

En okkar menn urðu líka fórnalömb ótrúlegs klúðurs mótshaldara. Jóhann Helgason var dæmdur úr leik á þeim forsendum að hann hefði ekki mætt til leiks. Það stóðst auðvitað ekki því Jóhann var þarna og, búinn að skrá sig og borga keppnisgjaldið og tilbúinn í slaginn. Síðar kom í ljós að hann hafði aldrei verið kallaður upp! Þegar þetta uppgötvaðist var orðið og seint að leiðrétta mistök. Mótshaldarar báðust afsökunar, greiddu honum einhverjar „skaðabætur“ og skráðu hann í opna flokkinn sem þeir einir eiga rétt á að keppa í sem eru í fyrstu þremur sætunum í þyngdarflokkunum.

Opni flokkur svartbelta var einnig í dag og þar var annað klúður! Gunni mætti þar þreföldum Brasilíumeistara Thiago "Monstro" Borges (+100kg flokki, enda "Monstro" = "Skrímslið") í fyrstu glímu. Gunnar taldi sig vera að vinna glímuna þegar henni lauk, hann væri með 2 stig gegn 2 advantage hjá Thiago, en vallardómarinn hafði gefið Thiago 1 adv fyrir Takedown tilraun og annað adv fyrir að fara úr full guard hjá Gunnari yfir í half guard.Woundering Gunnar hélt því að hann hefði sigrað en í millitíðinni hafði einhver starfsmaður mótsins komið að dómaraborðinu frá áhorfandapöllunum og flett til baka þessu adv hjá Thiago fyrir Takedown tilraunina og gefið honum í stað tvö stig!Shocking Thiago er eitthvað númer þarna og var m.a. líka að dæma á mótinu og þetta hefur að öllum líkindum verið einhver félagi hans! Angry Thiago fékk síðan 1 adv fyrir að fara úr guard hjá Gunna yfir í half guard! Þegar mistökin uppgötvuðust viðurkenndi aðaldómarinn þau og bað Gunnar afsökunar en því miður var Thiago þegar búinn að glíma aftur og því orðið of seint að leiðrétta þetta. Skelfileg handvömm og dómarakúður og með ólíkindum að einhver starfsmaður, hvort sem hann var dómari eða ekki, gangi að dómaraborðinu við glímu sem hann hefur ekkert með að gera og breyti úrskurði vallardómara án þess að nokkur á dómaraborðinu hreyfi legg né lið! Þessi afgapi var heppinn á ég var ekki þarna því þeir væru sennilega enn að velta fyrir sér hvernig ætti að losa hausinn á honum upp úr klósettskálinni! Devil Ekkert upp á Thiago að klaga samt, hann er auðvitað mjög góður BJJ keppandi og fór alla leið í úrslit í opna flokknumi og keppir því til úrslita þar á morgun.

Á morgun keppir okkar fólk í hvítabeltaflokkum (Bjartur Guðlaugsson, Sigurjón Viðar Svavarsson, og Hreiðar Már Hermannsson). Þá keppa verðlaunahafarnir okkar í bláu beltunum ásamt Jóhanni í opnum flokki. Að lokum keppir Gunnar í sínum þyngdarflokki á morgun.


Keppnislið Mjölnis komið til Svíþjóðar

Keppnislið Mjölnis flaug til Stokkhólms í morgun til að keppa í Opna Norðurlandameistaramótinu í BJJ (Scandinavian Open) um helgina. Tíu keppendur fara frá Mjölni og er hópurinn búinn að vera við strangar æfingar síðustu vikurnar. Það eru tæplega sex hundruð keppendur skráðir til þátttöku í mótinu en Mjölnir er eini íslenski klúbburinn sem sendir keppendur að þessu sinni. Eins og margir vita er þetta Gi mót og keppt í þyngdar- og styrkleikaflokkum líkt og yfirleitt er á opnum mótum í BJJ. Gunni er auðvitað sá eini héðan sem keppir í hæsta styrleikaflokknum, enda eini Íslendingurinn með svart belti, en aðrir keppendur eru þau Auður Olga Skúladóttir, Bjarni Kristjánsson, Jóhann Helgason, Sighvatur Helgason og Þráinn Kolbeinsson sem keppa í blábeltaflokki og Bjartur Guðlaugsson, Hreiðar Már Hermannsson, Sigurjón Viðar Svavarsson og Vignir Már Sævarsson sem keppa í hvítbeltaflokki.

Keppnislið Mjölnis á Scandinavian Open 2009
Keppnislið Mjölnis f.v.: Gunnar Nelson, Þráinn Kolbeinsson, Bjarni Kristjánsson, Auður Olga Skúladóttir, Hreiðar Már Hermannsson, Vignir Már Sævarsson, Sigurjón Viðar Svavarsson, Sighvatur Helgason og Jóhann Helgason. Á myndina vantar Bjart Guðlaugsson.

Svartbeltaflokkurinn er með marga mjög góða keppendur, m.a. fyrrum Brasilíumeistara og silfurverðlaunahafa af Evrópumeistaramótinu 2008, Ricardo Oliveira, sem er með Gunnari í þyngdarflokki og er talinn einn sá sigurstranglegasti á mótinu. Hann er í feikna formi þessa dagana og var meðal annars boðinn þátttaka í ADCC World Pro BJJ Cup sem var aðeins fyrir þá bestu í Gi. Hann er jafnframt silfurverðlaunahafi frá síðasta Evrópumeistaramóti (Gi) þar sem hann tapaði naumlega í úrslitum fyrir Alexandre de Souza sem eins og sumir vita vann m.a. þyngsta flokkinn World Pro Jiu Jitsu Cup. Sem dæmi um styrkleika þessa flokks þá lenti Braulio Estima, sem vann bæði sinn flokk og opna flokkinn á ADCC, í fjórða sæti í sínum þyngdarflokki þarna og komst ekki á blað í opnum flokki. Annar sterkur keppandi í Gunna flokki er gullverðlaunahafinn frá Danish Open BJJ 2009, Daniel Haglind, sem jafnframt er silfurverðlaunahafi frá Evrópumótinu.

Opni svartbeltaflokkurinn er því fjölda verðlaunahafa frá alþjóðlegum mótum og m.a. er gaman að sjá Iran Mascarenhas þarna en hann er fyrrum gullverðlaunahafi af þessu móti í svartbelta flokki. Eins og margir eflaust muna þá mættust Gunni og Mascarenhas í hringnum í fyrra þegar Gunnar vann á rothöggi í annarri lotu. Það væri ansi gaman ef þeir fengju að mætast aftur, nú í BJJ í Gi sem er Mascarenhas sterkasta hlið. Allavega stendir í hörku baráttu hjá okkar fólki sem allt saman er íþróttinni til sóma og hefur mikið sigur- og keppnisvilja.


Ekki amarlegur árangur tvær helgar í röð!

Sigurvegarar í opnum flokki á Pan no-giÞað má með sanni segja að síðustu helgar hafi verið árangursríkar hjá Gunnari. Fyrst að taka fjórða sætið á ADCC og svo að vinna gull í sínum þyngdarflokki og silfur í opnum flokki á Pan Jiu-Jitsu No-Gi Championship í New York. Gunnar keppti reyndar aldrei um gullið í opnum flokki því hann hefði lent á móti liðsfélaga sínum frá Renzo Gracie Academi og þegar svo er þá varpa þeir hlutkesti einhverra hluta vegna. Fáránlegt finnst mér en þetta er víst vaninn þarna. Þannig að Gunnar tapaði hlutkestinum. Hér er frétt um þetta úr Gracie Magazine:

Gunnar Nelson may have come from Iceland and Rafael "Sapo" ("Frog") from Minas Gerais, Brazil. However they said there was no way they would forget they live and train together in Renzo Gracie academy daily basis and face each other for public eyes, even with an important title as the NY No Gi Pan absolute championship of the adult black belt was in the line.

Thus, after each one victory over his opponents, they closed out the bracket along with another teammate, Luis Gustavo (Renzo Gracie Newark), yesterday (Sat, Oct 3) at the City College, famous institution located at the upper west side of Manhattan.

Renzo Gracie Academy equaled last year result, taking first in the adult division. Soca BJJ took an amazing second whilst Lloyd Irvin got third. 


mbl.is Gunnar vann gull- og silfurverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Combat - bardagaíþróttir

Umfjöllun um bardagaíþróttir (bardagalistir), bæði á Íslandi og erlendis.

Höfundur

Halli Nelson
Halli Nelson

Nýjustu myndir

  • Gunnar Nelson vs Vinicius Magalhães
  • Þráinn Kolbeinsson, Gunnar Nelson og Sighvatur Helgason
  • Gunnar Nelson after the win over Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell

RSS-straumar

MMA fréttir

Mjölnir

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Fighters Only Magazine

Stærsta tímarit í Evrópu um MMA. Kemur út mánaðarlega.
  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 193480

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband