Gunnar sigrar Driss El Bakara í Dublin - berst aftur nk. laugardag

Gunnar ber á El BakaraJæja, ekkert sett hér inn lengi en nú er sannarlega tilefni til. Gunnar hefur undanfarnar vikur dvalist í Dublin á Írlandi við æfingar hjá John Kavanagh og verður þar fram í nóvember. Þá hyggst hann fara til Manchester og dvelja þar fram að jólum og æfa hjá Karl Tanswell. Hann kemur heim yfir jól og áramót en ætlar sér síðan að fara fljótlega út aftur á nýju ári til æfinga.

Gunnar barðist sl. laugardag, 29. september, á Cage Rage Contenders: Dynamite mótinu í National Stadium í Dublin við hinn franska Driss El Bakkara í Pro MMA bardaga og sigraði í fyrstu lotu með armbar. Gunnar tók andstæðing sinn niður strax í byrjun lotunnar og stjórnaði bardaganum upp frá því. Gunnar mountaði síðan Frakkann og ground- & poundaði hann áður en hann innsiglaði sigurinn með armbar eins og áður segir þegar 3 mínútur og 46 sekúndur voru liðnar af bardaganum. Að sögn John Kavanagh þjálfara hans vakti Gunnar mikla athygli þarna fyrir góða frammistöðu og ekki síst fyrir hversu afslappaður hann var í bardaganum, eða svo vitnað sé í umsögn af spjallsíðunni Ring of Truth:
"Gunni looked amazingly zen-like and composed. It was one of those situations where he looked so relaxed it was like he was just training in the gym, methodically getting mount and then calmly timing his strikes. He threw less from top than anyone else on the night, but he landed everything and you could hear the impact. Correct me if I'm wrong, but was Driss actually out from a strike when Gunni got the armbar?"

Gunni var búinn að vera glíma við flensu alla síðustu viku en lét það ekki stoppa sig í að mæta sterkur til leiks. Myndband af keppninni kemur eftir ca. 2-3 vikur.

Gunnar mun síðan berjast annan atvinnumannabardaga í MMA nk. laugardag, 6. október. Sú keppni fer fram í Galway á Írlandi og heitir UFR 10 - Tribal Warfare. Andstæðingur Gunnars þar er Adam Slawinski sem mun vera pólskur wrestler. Adam þessi átti að berjast við Liam O’Toole en sá mun eiga í einhverjum meiðslum á kné. Því þurfti Liam að draga sig út úr bardaganum og Gunnari var boðið að koma í hans stað. Við vitum lítið um þennan andstæðing annað en að hann á að vera góður wrestler og hlaut “The Fighting Ireland prize for Best Submission“ á síðasta móti sem hann tók þátt í í apríl síðastliðnum.  Á netinu má þó m.a. finna þá umsögn um Adam Slawinski hann sé mjög góður í sínum þyngdarflokki (rankaðu hæstur í sínum þyngdarflokki í Irish MMA League 2007 sem er áhugamannkeppni), eins harður af sér og hann sé hæfileikaríkur, gefist aldrei upp og leiti stöðugt að submissions í bardögum sínum.

Frekar óvanalegt er að keppendur í MMA keppi aftur svo stuttu eftir bardaga, eins og Gunnar gerir núna, en honum bauðst að koma inn fyrir Liam O‘Toole og þar sem síðasta bardaga Gunnars lauk í 1. lotu án teljandi vandræða fyrir hann þá ákvað Gunnar að takast á við Slawinski. Við óskum okkar manni alls hins besta og sendum honum baráttukveðjur til Írlands. Við vonum bara að í lok bardagann reisi dómarinn hönd Gunnars upp til merkis um sigur eins og gert var sl. laugardag.

Gunnar sigrar

Fleiri myndir frá viðueign Gunnars Nelson og Driss El Bakara í Dublin 29. september

Gunnar Nelson vs Driss El Bakara


Íslandi og íþrótt sinni til sóma

Þetta er frábær árangur hjá íslenska íþróttafólkinu. Óska þeim öllum til hamingju, þau eru svo sannarlega íþrótt sinni og Íslandi til mikils sóma. Það er sérstakt ánægjuefni hversu vel júdófólkið okkar stóð sig með þrenn gull, silfur og brons í einstaklingsgreinunum. Auk þess deildi íslenska kvennasveitin í júdó þriðja sætinu með Luxemborg.


mbl.is Smáþjóðaleikarnir: Ísland með flestu gullverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar fékk fjólublátt belti í BJJ - Sigraði 18 á 44 mínútum

Gráðun hjá Mjölni 3. júní 2007Þær voru heldur betur magnaðar æfingarbúðirnar með þeim Matt Thornton og Karl Tanswell hjá Mjölni um síðustu helgi. Undirritaður tók þátt í þeim, ásamt um þrjátíu manns, og var tekið vel á því frá föstudegi til sunnudags.

Að undangengninni þriggja klukkustunda æfingu á sunnudeginum var Gunnar síðan settur í svokallað Ironman (járnmennaraun) í rúmar 50 mínútur. Það felst í því að viðkomandi er látinn glíma við fjölda óþreytta andstæðinga, hvern á fætur öðrum, án þess að hann fái hvíld á milli glíma. Gunnar glímdi við alla í salnum, alls 23 andstæðinga, og stóðu glímurnar yfir í rúmar 50 mínútur eins og áður segir. Gunnar sigraði fyrstu 18 en síðan sagði þreytan til sín, enda þá búinn að glíma stanslaust í rúmar 44 mínútur, auk þess sem 2 af 5 síðustu andstæðingunum voru þeir M. Thornton og K. Tanswell. Ég hef aldrei séð Gunnar örmagna fyrr en eftir þessa eldskírn fékk hann fjólublátt belti (með tveimur röndum) og er þriðji Íslendingurinn til að ná slíku belti í BJJ (brasilísku Jiu Jitsu). Hinir eru þeir Arnar Freyr Sigfússon yfirþjálfari Mjölnis og Haraldur Þorsteinsson sem kominn er á fullorðinsár en hann hefur búið í Bandríkjunum til fjölda ára. Enginn Íslendingur hefur enn náð brúnu né svörtu belti í BJJ.

Þá fengu þau Auður Olga Skúladóttir, Sólveig Sigurðardóttir, Silja Baldursdóttir og Ingþór Örn Valdimarsson öll blátt belti (Auður fékk einnig þrjár rendur á sitt belti og Sólveig tvær). Hópur blábeltinga í Mjölni fer því ört stækkandi og þó nokkrir sem eru ekki langt frá því marki og reyndar sumir blábeltingar einnig ekki langt frá því fjólubláa.

Það var gaman að heyra í Matt Thornton eftir gráðunina en þá hrósaði hann Mjölni, þjálfurum og iðkendum félagsins fyrir færni og dugnað. Hann sagði alla þá sem fengu beltin sín afar vel að þeim komin og m.a. sagði hann að stelpurnar þrjár væru sérlega tæknilegar og góðar. Þá sagði hann standardinn hjá félaginu háan og faglegan metnað mikinn. Matt fór afar fögrum orðum um Gunnar og sagði að af öllum þeim fjölda BJJ iðkenda sem hann hefði þjálfað gegnum árin á Norðurlöndum teldi hann Gunnar Nelson, ásamt Thomas La Cour hjá CSA í Danmörku, hafa einstaka hæfileika í BJJ.

Það er svo sannarlega ekki amarlegt fyrir jafn ungan klúbb og Mjölni að vera með tvo fjólubláa beltinga í BJJ (og hvað þá jafn há fjólublá belti og Arnar og Gunnar), ekki síst undir Matt Thornton og SBG International sem gerir gríðarlegar kröfur til beltishafa (þær mestu sem þekkjast) en til marks um það má nefna að enginn Norðurlandabúi hefur enn fengið hærri gráðu en fjólublátt belti innan SBG. Rétt er líka að hafa í huga að fleiri hjá Mjölni eru sennilega ekki langt frá því að fá fjólublátt.

Nánari upplýsingar og myndir frá æfingabúðunum má finna á vefsetri Mjölnis, www.mjolnir.is og einnig er myndband af allri 50 mínútna járnmennarauninni inni á Google.

Viðbót 7. júní
Við þetta má bæta að Morgunblaðið birti mjög góða frétt um þetta á baksíðu sinni í gær, 6. júní. Ber blaðinu miklar þakkir fyrir.


Það yrði aldeilis fundið að því ef...

... þetta hefði gerst á einhverju bardagaíþróttamóti, þ.e. að nokkrir keppendur hefðu verið fluttir með sjúkrabíl til aðhlynningar. En svona birtast nú fordómar og fáfræði í mörgum og mismunandi myndum. Bardagaíþróttir hafa lengi mátt berjast fyrir tilverurétti sínum hér á landi þrátt fyrir að vera elsta íþróttagrein í sögu mannkyns. Umræður hér á landi hafa iðulega einkennst af sterkum skoðunum fólks sem aldrei hefur komið nálægt bardagaíþróttum og veit ekkert um þær. Ef svo ólíklega vill til að einhver slasist við iðkun bardagaíþrótta (en meiðslatíðni þar er afar lág) er það gjarnan blásið upp en það þykir ekkert tiltökumál þó menn séu í umvörpum fluttir á sjúkrahús eftir akursíþróttamót eða hér sé fjöldi fólks stórslasaður eða látinn eftir hestaslys.

Með því að gera þetta að stuttu umtalsefni hér er ég þó engan veginn að vega að akstursíþróttum né öðrum íþróttagreinum enda þeirrar skoðunar að fólk eigi að fá að stunda þær íþróttir sem það vill. Ég er aðeins að vekja athygli á þessu til að vekja þá sem þetta lesa til umhugsunar um að líta sér nær næst þegar menn fárast yfir bardagaíþróttum, án þess auðvitað að hafa nokkuð á bak við sig til að styða fordóma sína. Frekar en aðra fordóma almennt.


mbl.is Klaustur gekk stórslysalaust fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar vann tvöfalt

Auður og Gunnar sigurreifSíðastliðinn laugardag, 19. maí, var Opna Mjölnismótið í frjálsri glímu eða "submission grappling" eins og íþróttin kallast á ensku. Frjáls glíma er vaxandi íþrótt og nýtur aukinna vinsælda á Íslandi en íþróttin hefur lengið verið vinsæl víða erlendis. Reglurnar í frjálsri glímu eru til þess sniðnar að iðkenndur flestra glímuíþrótta geta tekið þátt. Gunnar Nelson vann tvöfalt sem sagt bæði sinn flokk, en hann keppti í -81 kg flokki, svo og opna flokkinn. Sigurvegari í kvennaflokki var Auður Olga Skúladóttir. Svo skemmtilega vill til að þau eru par. Mótið var nú, líkt og í fyrra, haldið í sal Júdófélags Reykjavíkur.

Til gamans má geta þess að þau Gunnar og Auður voru á sínum tíma (apríl 2005) valin efnilegustu karatemenn Íslands en þau eru nú bæði hætt keppni í karate og hafa alfarið snúið sér að æfingum í MMA (mixed martial arts) og BJJ (brasilísk Jiu Jitsu). Gunnar og Auður æfa bæði hjá Mjölni.

Úrslit á mótinu má finna hér að neðan.

Opinn flokkur karla
1. Gunnar Nelson (Mjölnir)
2. Arnar Freyr Vigfússon (Mjölnir)
3. Bjarni Baldursson (Mjölnir)

Opinn flokkur kvenna
1. Auður Olga Skúladóttir (Mjölnir)
2. Sólveig Sigurðardóttir (Mjölnir)

+88 kg
1. Gunnar Páll Helgason (Mjölnir)
2. Atli Örn Guðmundsson (Mjölnir)
3. Haraldur Óli Ólafsson (Fjölnir)

-88 kg
1. Jón Viðar Arnþórsson (Mjölnir)
2. Brynjar Hróarsson (Mjölnir)

-81 kg
1. Gunnar Nelson (Mjölnir)
2. Bjarni Baldursson (Mjölnir)
3. Sighvatur Helgason (Mjölnir)

-74 kg
1. Arnar Freyr Vigfússon (Mjölnir)
2. Victor Pálmarsson (Mjölnir)
3. Tómas Gabríel Benjamin (Mjölnir)


Matt Serra óhress með Georges St. Pierre

Georges St. Pierre og Matt Serra Eftir bardaga þeirra Georges St. Pierre og Matt Serra í UFC 69 í síðasta mánuði, þar sem Serra tók veltivigtartitilinn óvænt af GSP, var eftir því tekið hversu vel fráfarandi meistari tók ósigrinum. En í nýlegu útvarpsviðtali lýsti GSP því hins vegar yfir að hann hefði verið meiddur í bardaganum, hefði aðeins æft lítillega í tvær vikur og verið illa undirbúinn. Jafnframt fullyrti GSP að ef hann hefði verið að mæta Matt Hughes þá hefði hann aldrei samþykkt bardagann en hann hefði greinilega vanmetið getu Matt Serra.

Eðlilega hafa þessi orð ekki farið vel í Matt Serra sem í viðtali sakar GSP um hrein ósannindi. „Hann stóð upp eftir bardagann og játaði ósigur sinn karlmannlega en nú kemur hann með þetta kjaftæði,“ sagði Serra hinn fúlasti og gefur lítið fyrir þennan viðsnúning hjá GSP. Serra bendir á að hann hafi æft afar vel og unnið fyrir sigrinum og fyrir bardagann hafði GSP sagst ætla að undirbúa sig betur en nokkrum sinnum áður en nú væri komið annað hljóð í strokkinn. „Þannig að hvort er það? Var hann að ljúga þá eða er hann að ljúga núna?“ spyr Serra og segir að GSP hljómi eins og gömul lumma. Honum væri nær að hætta að fara alltaf með fyrirfram ákveðinn texta og tala þess í stað beint frá hjartanu.

„Ekki misskilja mig“ segir Serra „hann er góður og hæfileikaríkur en hann var sigraður. Ég geri mér grein fyrir því að í æfingabúðum hans er erfitt að sætta sig við að ofurmennið skyldi tapa en því er nú þannig varið. Nú vilja þeir halda því fram að það sé sökum þess að hann hafi verið illa undirbúinn. Ef hann var illa undirbúinn þá hefði hann ekki geta barist í 5 lotur en hann stóð ekki einu sinni þrjár mínútur, þannig að ég vil ekki þurfa að hlusta á þetta,“ bendir Serra á og segir orð GSP hugsanlega mega rekja til lélegra ráðgjafa.

„Allavega, miðað við einhvern sem predikar heiður og siðgæði þá fer lítið fyrir þeim. Ég sakna gamla GSP. Líkt og allir aðrir var ég mikill aðdáandi hans. Hvar er hann? Sjáðu til, þessi náungi var allt sem Matt Hughes var ekki. Það gerir þetta jafnvel verra. Við vissum öll að Matt Hughes var asni en Georges átti að vera einn af góðu gæjunum,“ segir Serra svekktur og bendir á að fyrir bardagann hafi GSP kallað sig vin sinn. Nú fari minna fyrir því og Serra segist ekkert vilja með hann hafa.

Maður getur að vel skilið gremju Matt Serra þó hann sé kannski full harðorður. Það er rétt sem hann segir að fyrir bardagann kvaðst GSP vera í toppformi og laus við öll meiðsli. Sama sagði hann eftir bardagann enda umtalað hversu vel hann tók ósigrinum. Nú hefur hann snarsnúið þessu og þarf engan að undra þó Serra finnist að sér vegið. Georges St. Pierre á eflaust eftir að svara Serra og það er alveg ljóst annar bardagi þeirra á milli mun verða afar spennandi. Hann mun þó ekki verða alveg á næstunni og sennilega ekki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Sjáum hvað setur.

Samningur UFC og HBO í lausu lofti

Samningur HBO og UFC í lausu loftiSjónvarpssamningur milli UFC og HBO hefur lengi verið á óskalista margra MMA aðdáenda en stöðin ein af þeim stærstu í heimi. Nokkrum sinnum hefur virst sem samningur þess efnis væri í höfn en fréttir um að hann lægi á borðinu hins vegar ekki fyrr verið komnar í loftið en þær hafa verið skotnar niður aftur.

Nýlega fóru þessar sögusagnir á kreik enn á ný og nú sterkari en oft áður. Hins vegar bárust jafnskjótt fregnir af því að stjórnarformaður HBO og framkvæmdastjóri, Chris Albrecht, hafi verið sagt upp störfum en Albrecht var talinn einn mesti stuðningsmaður samningsins innan fyrirtækisins. Þetta er talið geta komið í veg fyrir samninginn enn eina ferðina og í nýlegu viðtali tjáir Dana White, forseti UFC, sig um málið. „Þetta er óheppilegt,...“ segir hann en „það var enginn samningur orðinn að veruleika hvort sem er. Við erum enn að kasta þessu okkar á milli.“

Forstjóri íþróttasviðs HBO, Ross Greenburg, hefur lengi verið andsnúinn því að semja um útsendingar frá MMA viðburðum, en Greenburg er mikil hnefaleikaaðdáandi. Albrecht tók hins vegar ákvörðun þvert á óskir Greenburg og mun hreinlega hafa skipað honum að ganga frá samningnum um MMA útsendingar. En nú er Albrecht horfinn á braut og margir telja lítinn vafa á því að þar með muni sjónvarpssamningurinn fara sömu leið.

Það vakti talsverða athygli, eftir boxbardaga Floyd Mayweather yngri og Oscar De La Hoya um daginn, að HBO boxlýsandinn Jim Lampley sá ástæðu til að skjóta á MMA í orðum sínum með því að halda því fram að hugrekki eins og boxararnir hefðu sýnt í hringnum myndu menn aldrei sjá í MMA. Það er löngu vitað að Lampley er af gamla skólanum, hefur ekkert vit á MMA og finnst vinsældir þess ógna boxinu sem hann telur sig sérfræðing í. En það eitt að Lampley skyldi finna þörf hjá sér til að dissa MMA í beinni útsendingu sýnir best hversu rísandi sportið er og að vinsældir þess eru farnar að hrella útsérgengna lýsendur eins og Lampley. Það vakti nefnilega ekki síður athygli að hinn HBO boxlýsandinn, Max Kellerman, tók þegar upp hanskann fyrir MMA og sagði við Lampley að hann væri algjörlega ósammála honum. Kellerman er einn af upprennandi stjörnum HBO og þykir efnilegasti boxlýsandi þeirra í dag en hann hóf að lýsa hjá stöðinni árið 2005. Margir muna kannski eftir honum sem boxlýsandanum í hringnum í nýjustu Rocky myndinni, Rocky Balboa. Þess má geta að Kellerman er fæddur árið 1973 en Lampley árið 1949.

Aðdáendur MMA og UFC þurfa þó langt frá því að örvænta því eins og menn vita er MMA sent út á kapalstöðinni Spike TV og er heitasta efnið þar í dag. Það mun því sennilega ekki vera neinn skortur á sjónvarpsstöðvum sem munu sækjast eftir þessu vinsæla efni íþróttar sem fer stöðugt vaxandi. Og það er alls óvíst að aðrir stjórnarmenn HBO munu til lengdar sætta sig við að sjónvarpsstöðin verði af miklum tekjumöguleikum vegna þrjósku eins yfirmanns hennar.


MMA vs. Box - don't even go there!

Það heyrir nú sögunni til að blandaðar bardagalistir (MMA) standi í skugga hnefaleika hvað áhorfendatölur varðar enda MMA er sú bardagaíþrótt sem er í mestri sókn, bæði í vestur- og austurheimi. Þetta fer mikið í taugarnar á sumum aðstandendum hnefaleika og þrátt fyrir að bardagi þeirra Oscar De La Hoya og Floyd Mayweather yngri hafi sett nýtt met í „ pay-per-view“ hefur það lítil slegið á gremjuna.

Floyd Mayweather yngriFloyd Mayweather yngri gerði sitt í að æsa menn upp fyrir bardagann m.a. því að halda því fram að keppendur í MMA væru fyrst og fremst þeir sem ekki hefðu getað meikað það í boxinu. Mayweather sagði jafnframt að hver einasti almennilegi boxari gæti gengið inn í UFC keppnina og afgreitt titilhafana þar án erfiðleika. Þegar Dana White, forseti UFC, bauð honum að standa við stóru orðin og keppa við UFC léttivigtarmeistarann Sean Sherk í átthyrningnum var Mayweather fljótur að bakka út úr fullyrðingunum sínum og sagðist bara hafa verið að vekja umtal fyrir bardaga sinn við Oscar De La Hoya. Síðan hefur Mayweather reyndar beðist afsökunar á orðum sínum og sagst sjá eftir þeim. En Sean Sherk er hins vegar allt annað en hress með boxmeistarann. „Sem UFC meistari tók ég þessu sem beinni lítilsvirðingu. Ég vildi mæta honum og við Dana ræddum það. En strax eftir bardagann dró Mayweather orð sín til baka og sagðist bara hafa verið að selja miða.,“ sagði Sherk. „Ég hefði gjarnan vilja fá svona bardaga. Það hefði afhjúpað hversu takmarkaðir hnefaleikar eru.“

Síðan þetta átti sér stað hefur veltiviktar IBF meistarinn Kermit Cintron, sem jafnframt glími í menntaskóla og háskóla, lýst því yfir að hann vilji taka áskoruninni. „Ég vil bardagann,“ sagði Cintron. „Ég get glímt. Ég get boxað. Ég get sigrað þessa UFC gaura í þeirra eiginn sporti.. Segið herra White að gera mér tilboð og ég skal berjast við hans mann þegar ég er búinn að berjast við Matthysse...“ Þarna er Cintron að vísa til þess að hann berst 14. júli við áskorandann Walter Mattysse um IBF titilinn. Þess má geta að Cintron rankaður 7 besti veltiviktar boxarinn í heiminum í dag af The Ring magazine, með recordið 27-1 (25 KOs). Hann keppti einnig í wrestling á sínum tíma og endaði m.a. í 10 sæti í National Junior College Wrestling Championships sem telst mjög gott.  Nú berast síðan fregnir af því að fleiri boxara hafi lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að mæta MMA mönnum í UFC. Dana White hefur hins vegar dregið í efa áhuga raunverulega áhuga hnefaleikara á að keppa í UFC og segir aðal markmið þeirra sé að koma illu orði á MMA. Hann segir þó Floyd Mayweather ekki vera í þessum leik og hefur tekið afsökunarbeiðni hans til greina. Aðspurður um hvort hann telji að Mayweather muni samþykkja að berjast í UFC segir Dana svo ekki vera. „Nei, auðvitað ekki. Kermit Cintron vill ekki heldur berjast við neinn af fremstu MMA keppendunum. Ekki þar fyrir að það veit hvort sem er enginn hver Kermit Cintron er,“ segir Dana og gefur lítið fyrir IBF veltivigtatitil Cintron. 

Hver svo sem endirinn á þessu verður finnst undirrituðum þetta frekar kjánalegt allt saman. Hvað er t.d. það fyrsta sem Cintron tekur fram þegar hann segist vera tilbúinn að mæta MMA mönnum? Jú, auðvitað að hann geti nú meira en boxað. Hann hafi verið wrestler í skóla áður fyrr og geti því líka glímt í gólfinu. Og er þar með auðvitað að segja að hann þurfi meira en boxhæfileika til að standa sig í MMA. Þetta kemur okkur sem höfum fylgst með MMA til margra ára auðvitað ekkert á óvart. Í dag þýðir ekkert fyrir menn að mæta í alvöru MMA bardaga án þess að vera fjölhæfir bardagaíþróttamenn. Einhæfur bardagamaður á einfaldlega ekkert erindi í MMA ídag. Enda alveg ljóst að hnefaleikamaður sem ætlar sér í MMA bardaga æfir á allt annan hátt fyrir MMA bardaga en hnefaleikabardaga. Þetta er einfaldlega sitthvor íþróttin með sitthvorar reglurnar. En myndi þá góður boxari sigra góðan MMA mann í bardaga. Nei, því það koma svo margir þættir inn sem hann hefur ekki þjálfun í að eiga við eins og spörk, gólfglíma og fleira. Það eru hverfandi líkur á því að boxari sem aðeins ætlaði að boxa myndi eiga nokkuð í MMA keppanda að segja í MMA keppni.

Hnefaleikamenn geta þó huggað sig við að hæst launuðu boxararnir eru enn að fá margföld laun hæst launuðu MMA keppendanna þó munurinn vari ört minnkandi. En það er allt annað mál enda launagreiðslur íþróttamanna sér kapítuli út af fyrir sig.


Apríl - mánuður hinna óvæntu úrslita

Gonzaga rotar Cro CopÞað má með sanni segja að apríl sl. hafi verið mánuður hinna óvæntu úrslita í UFC. Matt Serra gerði hið „ómögulega“ í UFC 69 þegar hann sigraði Georges St. Pierre með TKO (tæknilegu rothöggi) og tók þar með UFC beltið í veltivigt af kanadíska fransmanninum. Og í UFC 70 steinrotaði hinn brasilíski Gabriel Gonzaga fyrrum Pridemeistarann Mirko „Cro Cop“ Filipovic. Cro Cop sem er þekktur fyrir spörkin sín, ekki síst fyrir rosalegasta vinstri fót í bransanum, var svo sannarlega sá sigurstranglegri í bardaganum en fyrirfram var vitað að sigurvegari hans myndi fá tækifæri á titilbardaga við Randy um þungavigtabeltið. Það lá nokkuð ljóst fyrir að Dana White, forseti UFC, hafði hugsað sér að næsti bardagi yrði titilbardagi milli Randy og Cro Cop en það gleymdist víst að segja Gonzaga frá þessu plani. Og hafi honum verið sagt það þá hefur hann í það minnsta ekki verið mikið að hlusta, enda í mestu vandræðum með enskuna. Líkt og með Serra gegn GSP var búist við að eini möguleiki Gonzaga væri í gólfinu en líkt og Serra gerði við GSP þá sigraði Gonzaga króatíska sparkarann á sínum eigin leik, þ.e. með glæsilegu hásparki sem sendi Cro Cop meðvitundalausan í gólfið. Sá sem þetta skrifar var svo heppinn að horfa á þetta með berum augum og trúði þeim varla, ekki frekar en hinir rúmlega 15 þúsund áhorfendurnir í M.E.N. Arena í Manchester. Það var reyndar óhugnalegt að sjá hvernig hægri fóturinn bögglaðist undir Cro Cop og enn ótrúlegra að sjá hann ganga óhaltan úr átthyrningnum nokkru síðar. Hann mun þó hafa tognað en ekki alvarlega. Sem má furðu sæta eins og menn sjá hér.

Og ég ætla að leyfa mér að spá því að Gonzaga kom aftur á óvart og sigri Randy „The Natrual“ Couture. En kannski kemur það úr þessu ekki svo mikið á óvart.


Tim Sylvia úr bakaðgerð

Tim SylviaAumingja Tim Sylvia greyið þurfti heldur betur að hlusta á óánægjuhróp rúmlega nítján þúsund áhorfenda eftir að Randy „The Natrual“ Couture hirti af honum UFC þungavigtartitilinn í UFC 68 þann 3. mars síðastliðinn. Ástæðan var þó ekki sú að Sylvia skyldi missa beltið, því meirihluti áhorfenda studdi Randy, heldur hitt að Sylvia kenndi m.a. meiðslum um frammistöðu sína. En þó Sylvia hafi strax séð eftir því að hafa minnst á þetta og vildi fátt frekar en geta dregið þau orð til baka, þá er það hins vegar svo að tröllið átti við meiðsli að stríða og hefur nú þurft að fara í bakaðgerð til að láta laga meiðslin. Sylvia segist hafa verið mjög kvalinn fyrir keppnina í mars en viðkennir að hafa verið of öruggur með sig. „Ég hélt að mér myndi duga eitt gott högg á Randy og þá yrði þetta búið,“ segir Sylvia í nýlegu viðtali. „Í hreinskilni sagt hefði ég hefði átt að hætta við bardagann.“

Sylvia er nýkominn úr bakaðgerðinni og segir hana hafa tekist vel. „Mér líður prýðilega. Ég er verkjalaus og get ekki beðið eftir því að losna úr læknismeðferðinni og hefja endurhæfingu. Ég var búinn að reyna allt, skurðaðgerðin var síðasti kosturinn. Þess vegna beið ég svona lengi frá bardaganum með að fara í hana, í heila tvo mánuði.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Tim Sylvia á í meiðslum. Margir MMA aðdáendur muna eflaust eftir því þegar hann tapaði titlinum sínum til Frank Mir í UFC 48 í júní 2004. Mir braut þá framhandlegginn á Tim með armlás þegar aðeins 50 sekúndur voru liðnar af 1. lotu. Frank Mir hefur tapað tveimur af síðustu þremur bardögum sínum í UFC, eftir að hann snéri aftur í hringinn eftir alvarlegt mótorhjólaslys. Sylvia varði titilinn sinn tvisvar eftir að hann vann beltið aftur af Andrei Arlovski áður en hann tapaði fyrir Randy núna í mars. En hann hefur aldrei fengið tækifæri til að hefna ósigursins fyrir Mir. „Ég hef meiri áhuga á þeim bardaga en nokkrum öðrum,“ segir Sylvia. Hver veit nema honum verði að ósk sinni. Bardagi milli Sylvia og Mir myndi sannarlega vekja mikla athygli og selja vel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Combat - bardagaíþróttir

Umfjöllun um bardagaíþróttir (bardagalistir), bæði á Íslandi og erlendis.

Höfundur

Halli Nelson
Halli Nelson

Nýjustu myndir

  • Gunnar Nelson vs Vinicius Magalhães
  • Þráinn Kolbeinsson, Gunnar Nelson og Sighvatur Helgason
  • Gunnar Nelson after the win over Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell
  • Gunnar Nelson vs Danny Mitchell

RSS-straumar

MMA fréttir

Mjölnir

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Fighters Only Magazine

Stærsta tímarit í Evrópu um MMA. Kemur út mánaðarlega.
  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband